top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Ég verð dauður á morgun

Fyrir mörgum árum vann ég vaktavinnu á Landspítalanum. Eitt sinn þegar ég var að mæta á næturvakt var mér sagt að á einni stofunni væri maður sem liði mjög illa og væri hræddur við að deyja. Hann ætti að fara í augnaðgerð morguninn eftir og hann væri mjög kvíðinn. (Þetta var mörgum árum áður en ég fór að vinna á augndeildinni).

Hann var á fjögurra manna stofu og hvert rúm skipað. Þegar ég kom inn á stofuna þar sem hann lá voru allir vakandi. Ég bauð gott kvöld og þá sagði maðurinn alveg skelfingu lostinn: ,,Ég verð dauður á morgun.” Tímann sem ég staldraði við á stofunni sagði maðurinn aftur og aftur að hann yrði dauður á morgun, um hádegi á morgun yrði hann dauður. Ég fann til með manninum og langaði til að segja honum frá þeim friði sem Jesús getur gefið og ég hef svo oft fengið að reyna sjálf, en mér fannst þær dyr lokaðar svo ég sagði ekki annað en: ,,Guð gefi ykkur góða nótt” og gekk út af stofunni.

Nóttin var annasöm, það voru margar innlagnir og ég var með hugann við annað en þennan fullorðna mann. Þegar ég kom inn á stofuna hans mjög snemma um morguninn til að mæla lífsmörk þá vöknuðu allir mennirnir fjórir og maðurinn í rúminu við hliðina á þessum hrædda sagði svo hátt að allir heyrðu: ,,Þakka þér fyrir að koma hér inn í nótt og biðja fyrir mér. Þetta var alveg yndisleg bæn, þú ert greinilega trúuð.” Ég varð næstum kjaftstopp því að ég hafði alls ekki komið inn á stofuna og beðið fyrir manninum. Það var alveg sama hvernig ég reyndi að leiðrétta það, hann trúði mér ekki. En þessi yfirlýsing og fullvissa mannsins varð til þess að opna dyr að spjalli um lífið og dauðann og ég fékk tækifæri til að segja manninum sem var svo hræddur að það væri hjálp að finna í þessum heimi og sálarfrið. Hann fór í aðgerðina og lifði hana af, þakklátur fyrir óvænt, yfirnáttúrulegt inngrip.

Þetta er ein af mörgum sögum sem ég get sagt af því hvernig Jesús kemur allt í einu og hjálpar fólki í vanmætti þess. Hann hjálpar jafnvel fólki sem er ekki að leita hans en hann veit að þarf á hjálp að halda. Hann fylgdi þessum hrædda manni gegnum spítaladvölina og var alveg örugglega með augnlækninum og samstarfsfólki hans í aðgerðinni. Talaðu við hann. Það virkar. Njótið dagsins, kæru vinir.

Comments


bottom of page