top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Þessi sterki strengur

Þegar María, móðir Jesú, stóð við krossinn hans og horfði á drenginn, sem hún elskaði heitar en flest annað, þjást og lífið fjara út með hverjum blóðdropa sem rann þá heyrði hún hann segja: ,,Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn." Þessa setningu er að finna í Davíðssálmi 31. Ef til vill var þessi bæn seinasta bænin sem María hafði kennt Jesú að fara með á kvöldin þegar hann var lítill drengur, áður en hann fór að sofa. Hversu mikið sem María fann til á Golgatahæð þar sem sonur hennar háði sitt hinsta stríð þá hafði sáningin hennar skilað árangri. Það sama má segja um sáningu svo margra foreldra gegnum aldirnar. ,,Fræddu sveininn um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja" segir höfundur Orðskviðanna. Þrátt fyrir alls konar öldusjó sem börnin okkar kunna að fara í gegnum þá slitnar ekki þessi strengur sem þeim er kennt að halda í sem litlum börnum. Foreldrar, ömmur og afar ættu aldrei að vanmeta mikilvægi þess að setjast hjá börnunum sínum fyrir svefninn og kenna þeim að biðja. Þegar þann tíma ber að, að við verðum ekki lengur til staðar til að leiðbeina þeim, þá verða þau að vita hvar hjálp er að fá í þessum heimi. Og þá hjálp er vissulega að finna. ,,Faðir í þínar hendur fel ég anda minn" er bæn sem við ættum að gera að okkar á hverju einasta kvöldi.


Comments


bottom of page