Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá höfum við ekki stjórn á öllu sem gerist í lífi okkar. Við getum hvað eftir annað upplifað togstreitu, þurft að glíma við Guð og okkur sjálf.
Páll postuli hvetur okkur í Ritningunni til að gefa Guði allt og lifa algjörlega fyrir hann hvað sem það kostar. Í bréfi Páls til Rómverja segir hann:
,,Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi.“ (Róm. 12,1)
Stundum henda erfiðir atburðir gott fólk. Leiðin til að eignast sálarfrið er að viðurkenna vanmátt sinn og treysta því að áætlun Guðs sé okkur alltaf til góðs. Erfiðasti hluti kæreikans er að sleppa takinu á því sem okkur þykir vænst um og gefa Guði þannig allt okkar líf. Líka það sem snertir strenginn dýpst í hjarta okkar.
Það er Guði þóknanlegt þegar fólk getur sýnt þann styrkleika að segja já við áætlun Guðs líka þegar það er erfitt. Stundum veltum við okkur upp úr hlutum sem eiga aldrei eftir að henda okkur og leyfum ótta og kvíða að stjórna líðan okkar. Þegar Jesús var krossfestur var óttinn negldur á krossinn til þess að við yrðum frjáls.
Páll postuli var frábær fyrirmynd. Hann lét ekkert stöðva sig og fylgdi Guði þó svo að hann vissi að það gæti kostað hann lífið. Hann gaf engan afslátt af kenningunni og sannfæringu sinni. Hann var fylginn sér, heiðarlegur og trúr. Fetum í fótspor hans og fylgjum Guði heilshugar.
Comments