Ég var fimmta barna foreldra minna. Þau ákváðu að eignast saman þrjú börn en til þess að það gengi upp gekk mamma með fimm. Fyrst kom lifandi drengur svo lést stúlka. Svo kom annar lifandi drengur síðan lést önnur stúlka. Svo kom ég. Önnur stúlknanna lést í fæðingu, hin á sjöunda eða áttunda mánuði meðgöngu. Þessar hugrenningar fóru gegnum huga minn í morgun, á fæðingardegi mömmu sem hefur fyrir löngu fengið sína hvíld. Hún hélt út. Hún hélt áfram. Líka þegar henni leið ekki vel. Ég á mömmu margt að þakka.
Stundum fer lífið aðrar leiðir en við vildum, héldum eða ætluðum. Stundum getum við fundið til, syrgt og grátið. En það er ekkert annað í boði en halda áfram.
Þegar það syrtir í álinn hjá þér mundu þá að þér mun ekki alltaf líða illa. Verkefnin sem við fáum í lífinu gera okkur að þeim karakter sem við erum. Lærum af fortíðinni, verum góð fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir og höldum áfram.
Comments