top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

„Ekki trúir hann því sem stendur í Biblíunni?“

Fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna, eða rúmum aldarfjórðungi, fór vinur minn að læra guðfræði. Ég man ennþá þegar ég hugsaði: „Hvað er að honum? Ekki trúir hann því sem stendur í Biblíunni?“ Athyglisverð staðhæfing í ljósi þess að sjálf hafði ég aldrei lesið hana. Ég hafði vissulega lesið eitt og eitt vers og lært biblíusögur í skóla en Biblíuna sjálfa hafði ég aldrei lesið.


Sem betur fer er leyfilegt að skipta um skoðun og afstaða mín breyttist þegar ég fór að kynna mér Biblíuna. Af og til síðan hefur fólk orðið á vegi mínum sem hefur viljað rökræða kristna trú. Sú umræða hefst iðulega á spurningu um hvort ég trúi því að aldingarðurinn Eden hafi verið til og Adam og Eva. Hvort heimurinn varð til í miklahvelli eða aldingarðinum Eden skiptir mig ekki miklu máli dagsdaglega. Hvernig sem hann varð til þá trúi ég því að Guð hafi verið við stjórnvölinn. Miðað við hraðann í himingeimnum tel ég okkur öllum fyrir bestu að einhver sé við stjórnvölinn. Og það er þessi einhver sem ég hef valið að leggja traust mitt á. Biblían segir frá áhrifamiklum persónuleika sem tímatalið okkar er miðað við. Fyrir og eftir Krist. Sjálf get ég miðað við það tímatal í tvennum skilningi. Annars vegar sem skilgreiningu á ártölum fyrir og eftir árið núll. Hins vegar sem þann andlega fjársjóð sem ég eignaðist þegar ég tók þá ákvörðun að trúa því að Jesús væri sá sem hann sjálfur sagðist vera. Það er kjarni Biblíunnar. Að trúa því að Jesús hafi sagt satt. Ef hann sagði satt þá er ekki annað hægt en fylgja honum. Fyrsta skrefið þitt í þá átt getur verið að lesa um hann í Biblíunni. Kynna þér sögurnar um hann.

Comments


bottom of page