Páll postuli var uppi á fyrstu öld eftir Krist. Hann var Gyðingur og upphaflega algjörlega á móti Kristi og öllum þeim sem á hann trúðu. Það var ekki fyrr en Jesús sjálfur kom í veg Páls að honum snerist hugur. Og eftir það varð ekki aftur snúið. Páll var óþreytandi að boða hverjum sem hlusta vildi að Jesús væri upprisinn, hann væri lifandi og hann hefði komið í þennan heim til að fyrirgefa syndir, þeim sem játuðu syndir sínar.
Fyrir þennan boðskap var Páll ofsóttur aftur og aftur. En hann hélt sínu striki. Hann missti ekki trúna því að sannfæring hans var djúpstæð og heilindin alltaf til staðar hvar sem hann var. Líkt og við öll gat Páll farið í gegnum dimman dal. Honum leið ekki alltaf vel. En hugarfar hans var hugarfar sem hefur átt erindi til allra kynslóða og á enn þann dag í dag.
Í Síðara Korintubréfi lýsir Páll erfiðleikunum sem hann hefur mátt þola. Þar segist hann hafa upplifað þrengingar, nauðir, andstreymi, barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, erfiðað, átt andvökunætur, þolað hungur, verið ofsóttur, upplifað vanheiður og last, talinn villumaður, verið að dauða kominn, tyftaður, hryggur, fátækur, efablandinn, felldur til jarðar og átt á hættu að vera drepinn á sama hátt og Jesús,.
Og þessi reynsla hefði örugglega dugað til að þagga niður í einhverjum og jafnvel dregið marga til dauða.
En Páll var enginn venjulegur maður. Hann hafði hugarfar sem við ættum að tileinka okkur því að fordæmið sem hann gaf er bæði fáséð og magnað. Hann telur nefnilega ekki eingöngu upp þjáningarnar sínar, heldur hvað hafi verið jákvætt í þessum kringumstæðum. Hann horfir fram á veginn, en ekki til baka. Páll telur upp blessanir sínar og allt sem hann getur verið þakklátur fyrir.
Hann segist ekki láta bugast, hann örvænti ekki, hann sé ekki yfirgefinn, hann tortímist ekki, þrátt fyrir allt geti hann sýnt hvernig Jesús lifði. Hann hafi mikið þolgæði, úthald og sé þolinmóður. Hann sé grandvar, honum takist að horfa á hið ósýnilega, Guð hafi gefið honum anda sinn sem tryggingu og þrengingin afli honum eilífrar dýrðar, hann fái endurgoldið það sem hann hefur mátt þola og þrátt fyrir allt eigi hann ennþá falslausan kærleika og mildi, hann segi sannleikann og sé ennþá á lífi.
Einhverjar afleiðingar hefur hann fengið að reyna á líkama sínum því að hann segir að jafnvel þótt hans ytri maður hrörni þá endurnýist hans innri maður dag frá degi. Og það var þessi innri maður Páls sem hafði yfirhöndina í lífi Páls ásamt heilögum anda.
Þrátt fyrir allt þá fékk hans innri maður nýtt upphaf á hverjum degi, sem Páll valdi að láta stýra sér, en ekki ytri kringumstæður eða líkamlegt ásigkomulag.
Hann var aðþrengdur en lét aldrei bugast. Hann horfði alltaf fram á veginn og gafst aldrei upp. Hann starfaði til hinsta dags.
Næst þegar þér finnst óréttlæti heimsins ætla að buga þig hugsaðu þá til Páls postula.
Hvílíkur maður!

Comments