Morgun- og kvöldbænir
alla daga vikunnar

Hugleiðing höfundar

Við ættum aldrei að vanmeta erfiða tíma í lífi okkar. Þegar við leggjum líf okkar í Guðs hendur getur hann haft tilgang með erfiðu tímabilunum, tilgang sem við komum ekki auga á fyrr en síðar. Árið 1998 fluttumst við fjölskyldan frá Reykjavík til Húsavíkur. Við höfðum verið mjög virk í starfi kirkjunnar okkar í Reykjavík, þar áttum við okkar vini og félaga og fundum ákveðinn tilgang með því að taka þátt í starfinu. Þegar við komum til Húsavíkur þekktum við afar fáa og fannst við vera talsvert einagruð. Mér leið ekki alltaf vel og mín leið var að biðja. Ég bað og bað. Ég spurði Guð aftur og aftur hvað hann vildi að ég gerði fyrir hann og bað hann að tala til mín. Þegar leið að fyrstu jólunum talaði Guð. Hann gerir það nefnilega þegar maður leitar hans. Guð lagði á hjarta mitt að skrifa bænabók sem ég og gerði, morgun- og kvöldbæn fyrir hvern dag vikunnar. Ég vissi ekki hvað Guð ætlaði sér með þessa litlu bók, en við ljósrituðum hana og sendum með jólakortunum fyrsta árið. Ekki leið á löngu þar til ein þeirra sem fékk bænabókina kom að máli við okkur og vildi láta prenta bókina. Hún gekk talsvert á eftir okkur því að við höfðum ekki jafn mikla trú á þessu verki og hún. Svo fór að hún spurði hvort hún mætti tala við prentsmiðjustjórann á Höfn í Hornafirði, en þaðan var konan, og fá tilboð í prentun. Það var okkur að meinalausu og létum við prenta1.000 eintök. Hún fékk fimm hundruð eintök og við hjónin fimm hundruð. Okkur fannst við vera að stíga heilmikið trúarskref, en við þetta fór boltinn að rúlla. Á þeim árum sem liðin eru hafa verið prentuð langt yfir 100.000 eintök sem búið er að dreifa víðs vegar um landið. Ég hef stundum sagt að ég eigi engan heiður af þessari bók. Bókinni var hlaðið niður í kollinn á mér og ég var ritarinn. Allt sem af Guði er fætt sigrar heiminn. Þess vegna virkar þessi bók enn í dag.

Nú er bókin komin á rafrænt form hér á síðunni en hún er einnig fáanleg á prenti. Hún hefur verið til í Kirkjuhúsinu, versluninni Jötu og í ýmsum kirkjum á landsbyggðinni. Einnig er hægt að panta hana með því að senda mér línu.​