Guð heyrir bænir og svarar þeim
Það er hægt að biðja hvar sem er og hvenær sem er, upphátt og í hljóði. Bæn er í raun að tala við Guð. Þú þarft ekki að biðja stöðugt um eitthvað eða að biðja hann að gera eitthvað fyrir þig, þú getur þakkað fyrir það sem þú hefur að þakka fyrir og lært með tímanum að dvelja í nærveru Guðs. Að biðja til Guðs er eins og að tala við vin þinn í síma nema þú eyðir ekki inneign og þarft ekki síma heldur. Það er nauðsynlegt að biðja í einrúmi en það er líka gott að biðja með öðrum annað slagið.
Það er engin regla um hversu langar bænastundir eigi að vera eða hversu oft. Það er hins vegar gott að venja sig á að biðja á hverjum degi, jafnvel kvölds og morgna þegar maður stígur sín fyrstu skref í að nálgast Guð. Þeir sem hafa eignast úthald í bæninni geta beðið svo klukkustundum skiptir. En bænin verður þá oft bæði samtal og lofsöngur.
Jesús fór stundum upp á fjall að biðja og var jafnvel alla nóttina á bæn, en hvort hann stóð, sat, kraup eða lá vitum við ekki. Guð er persónulegur Guð, hann er vinur og við tölum við hann. Prófaðu þig áfram og gerðu það sem þér þykir best. Í Biblíunni eru leiðbeiningar um fyrir hverju maður skuli biðja og hvaða hugarfar maður eigi að hafa. En fyrsta skrefið er alltaf að byrja að biðja og gera bænina að vana í lífi sínu. Guði er annt um þig og þú mátt koma með það sem liggur þér á hjarta til hans.
Hér fyrir neðan eru nokkrar bænir sem þú getur stuðst við þegar þú byrjar. Þú mátt líka koma bæninni í þín eigin orð. Svo geturðu smellt HÉR til að lesa Bænabókina en þar eru morgun- og kvöldbænir fyrir alla daga vikunnar.
Bænirnar hér fyrir neðan má biðja aftur og aftur. Ef þú þarft á hjálp að halda lestu þá bænina eins oft og þú þarft eða vilt og sannaðu til, þú færð svar.
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að mega tala við þig í dag. Þú þekkir mig og veist hvernig mér líður. Þú þekkir tómleikann í hjarta mínu. Mig vantar lífsfyllingu og einhvern tilgang. Mig vantar eitthvað sem ég veit kannski ekki alveg hvað er, en ég bið þig að fylla þetta tómarúm í hjarta mínu. Viltu senda mér heilagan anda. Ég bið að ég megi finna kærleikann þinn. Ef þú hefur einhverja áætlun með þessum tómleika viltu þá hjálpa mér að finna áætlun þína fyrir líf mitt og gefa að þessi líðan megi leiða til þess að ég finni það sem ég leita að og mig vantar. Jesús, vilt þú sjálfur koma inn í hjarta mitt og snerta þennan streng sem er dýpstur.
Í Jesú nafni, amen.
Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. Hann uppfyllir óskir þeirra sem óttast hann og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
Sálmur 145:18.
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að þú ert til staðar fyrir mig alla daga. Þú veist hvað íþyngir mér og veldur mér kvíða og sorg. Þakka þér fyrir að vilji þinn er að mér gangi vel. Þú getur gefið gleði sem ég finn hvergi annars staðar. Á þessum tíma þar sem við gefum gjafir þá gef ég þér sorgirnar mínar. Ég skil ekki að þú skulir vilja þiggja þær, en þú sagðir þeim að koma til þín sem erfiða og bera þungar byrðar og þú myndir gefa þeim hvíld. Viltu láta þessi orð rætast í lífi mínu. Ég þarf svo mikið á huggun og hvíld að halda. Mig vantar gleði og frið. Á þessum tíma sem við minnumst fæðingar þinnar, Jesús, þá bið ég þig að sýna mér hver þú ert og til hvers þú komst. Taktu við mér og hjálpaðu mér.
Í Jesú nafni, amen.
Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.
Jesaja 40:29.
Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jóhannesarguðspjall 14:27
Góði Guð.
Þú segir í orði þínu að þú gefir mér þinn frið. Þú selur hann ekki, hann er ókeypis handa þeim sem vilja þiggja hann. Jesús, ég trúi orði þínu. Ég trúi því að þú getir gefið mér frið. Viltu taka ófriðinn burt úr hjarta mínu. Viltu leysa mig undan þessari vondu tilfinningu og fylla mig af friði þinum. Friðinum sem enginn annar getur gefið og finnst bara hjá þér. Jesús, þú gefur ekki bara frið heldur ert þú friður. Viltu koma inn í hjarta mitt og búa þar alltaf með friðinn þinn. Í Jesú nafni ég bið, amen.
Margar eru raunir réttláts manns en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum. Hann gætir allra beina hans, ekki eitt þeirra skal brotið. Sálmur 34:20-21.
Góði Guð.
Viltu gefa mér hugarfar hugrekkis og kjarks. Viltu hjálpa mér að halda áfram hvaða hindranir sem verða á vegi mínum. Viltu hjálpa mér að gefast aldrei upp. Viltu hjálpa mér að sjá lengra en ég hef gert hingað til. Viltu hjálpa mér að sjá lausnirnar og keppa eftir þeim. Hjálpaðu mér að láta ekki úrtöluraddir hindra mig við að hrinda í framkvæmd því sem þú vilt að ég hindri í framkvæmd. Þakka þér fyrir að mega treysta því að hvaða hindranir eða raunir sem verða á vegi mínum þá frelsir þú mig úr þeim öllum. Í Jesú nafni, amen.
Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni. Jesaja 41:10
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að þú hefur allt vald á himni á jörðu. Þú hefur sigrað allt hið illa í heiminum. Ég bið þig að vernda mig og allt mitt fólk í dag og alla daga. Viltu frelsa okkur frá öllu illu. Viltu leysa okkur undan árásum og atlögum þeirra sem fara gegn okkur. Viltu vernda okkur frá slysum og hættum, sjúkdómum og veikindum. Ég þakka þér fyrir að þú segir í orði þínu að þú sért með mér, að þú styrkir mig og hjálpir mér og styðjir mig með sigrandi hendi þinni. Viltu láta þessi orð rætast á mér. Þú ert minn Guð og ég fel mig algjörlega í þínar hendur. Gefðu sigur, gefðu frið og gefðu vernd. Í Jesú nafni, amen.
Góði Guð. Þakka þér fyrir nýjan dag. Þakka þér fyrir að þú skulir hafa lagt líf þitt í sölurnar fyrir mig þegar syndir mínar voru negldar með þér á krossinn. Þakka þér fyrir blóðið þitt sem rann fyrir syndir mínar. Þakka þér fyrir allar þær byrðar sem þú barst, fyrir öll tárin sem þú felldir, sársaukann sem þú þoldir og huggunarorðin sem þú gast talað mitt í þinni eigin sorg. Þakka þér fyrir baráttu þína við máttarvöld myrkursins og þinn eilífa sigur yfir glötun og dauða. Takk fyrir að fá að vera barnið þitt. Í Jesú nafni, amen.
Vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður. Jóhannesarguðspjall 20:27c.
Góði Guð.
Ég hef ekki þekkt þig eins og þú vilt að ég þekki þig. Viltu auka mér trú. Ég játa fyrir þér, Jesús, að ég hef gert margt rangt, ég hef syndgað gegn þér og gert ýmislegt sem ég vildi að ég hefði ekki gert. Ég hef líka brotið gegn þér með því að gera ekki það sem ég hefði átt að gera. Viltu fyrirgefa mér syndir mínar. Viltu fyrirgefa mér vantrú mína. Ég opna hjarta mítt fyrir þér og bið þig, Jesús, að koma inn í hjarta mitt, hreinsa mig og gefa mér þinn frið. Viltu gefa að nafnið mitt verði skráð í lífsins bók og aldrei afmáð þaðan. Viltu gefa mér þá fullvissu þegar minn hinsti dagur rennur upp á þessari jörð að þú hafir fyrirgefið mér allt og ég geti óhikað horfst í augu við þann dóm og þau laun sem mæta mér. Ég trúi þvi, Jesús, að saklausa blóðið þitt hafi runnið fyrir sekt mína og synd. Fyrirgefðu mér allt. Í Jesú nafni, amen.
Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Jóhannesarguðspjall 20:21.
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að þú hefur áætlun með líf mitt. Þakka þér fyrir að það er áætlun þín að líf mitt beri mikinn ávöxt. Viltu hjálpa mér að leita og finna þá áætlun sem þú hefur fyrir mig. Viltu senda mig eins og þú sendir lærisveina þína. Viltu gefa mér allt sem ég þarf til að fylgja þér hvert sem þú leiðir mig og hvaða verkefnum sem þú vilt að ég sinni. Þakka þér fyrir styrkleikana sem þú hefur gefið mér. Hjálpaðu mér að nota þá þér til dýrðar, öðrum til góðs og mér til lífsfyllingar. Viltu opna mér þær dyr sem þú vilt að ég gangi inn um. Í Jesú nafni, amen.
Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni. Jesaja 43:18-19.
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að þú hefur leitt mig fram á þennan dag og þú munt ekki sleppa af mér hendinni. Viltu hjálpa mér að vera uppteknari af framtíðinni en fortíðinni. Þakka þér fyrir að dagurinn í dag er dagurinn sem ég hafði áhyggjur af í gær. Hjálpaðu mér að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum því að hann verður sennilega í lagi eins og dagurinn í dag. Hjálpaðu mér að setja mér markmið og hrinda þeim í framkvæmd sem fyrst. Vilt þú gefa mér sömu trú á mér og þú hefur á mér. Viltu hjálpa mér að lyfta lokinu sem hefur hindrað mig og aftrað mér og hjálpaðu mér að sjá lengra en ég hef séð hingað til. Þú hefur nýtt fyrir stafni. Auktu mér trú. Í Jesú nafni, amen.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Matteusarguðspjall 11:28
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að mega leita til þín með allt sem íþyngir mér. Þú sérð og þekkir kvíðann sem íþyngir mér og stjórnar lífi mínu. Viltu hjálpa mér að láta ekki kvíðann stýra öllu. Viltu gefa mér hugrekki og kjark til að horfast í augu við óttann og reka hann burt. Þakka þér fyrir, Jesús, að ég get treyst orðum þínum. Þú segir að ég megi koma til þín með allt sem íþyngir mér og þú munir gefa mér hvíld. Viltu láta þessi orð rætast í lífi mínu. Viltu taka burt kvíða hjarta míns og allt sem ég óttast, bæði það sem ég geri mér grein fyrir og það sem ég geri mér ekki grein fyrir. Viltu gefa mér frið, hvíld, kjark, hugrekki og gleði. Ég kem til þín með þyngslin mín, skil þau eftir hjá þér og bið þig að leysa mig undan þeim. Í Jesú nafni, amen.
Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa. Sálmur 55:23
Góði Guð.
Þakka þér fyrir öll loforðin í orði þínu sem ég treyst á. Allar þær áhyggjur sem ég hef legg ég í þínar hendur í trausti þess að þú berir umhyggju fyrir mér og hjálpir mér. Ég bið þess að ég komist í gegnum alla þá skafla sem verða á vegi mínum, missi ekki nætursvefn og geti hvílt í trausti þess að allt fari vel. Drottinn, vilt þú stýra því sem ég get ekki stjórnað og vitu hjálpa mér að vera ekki fyrir þér. Viltu líka gefa mér sálarfrið og gleði. Í Jesú nafni, amen.
Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda. Sámur 34:19
Góði Guð.
Þú þekkir tregann, sársaukann og sorgina í hjarta mínu. Viltu vera mér nálægur. Viltu leyfa mér að finna fyrir nærveru þinni og viltu græða sárin í hjarta mínu. Viltu taka burt dapurleikann og gefa mér bæði frið og gleði. Viltu hugga mig, styrkja og hjálpa. Þakka þér fyrir, Jesús, að þú þjáðist, þín var freistað og þess vegna bæði skilurðu þá sem líður illa og getur hjálpað þeim. Ég bið þig að láta þessi orð rætast í lífi mínu að þú sért nálægur mér þegar hjarta mitt er sundurmarið og að þú hjálpir mér með þennan sundurkramda anda. Ég legg mig í þinar hendur og bið um hjálp. Í Jesú nafni, amen.
Ávöxtur andans er kærleiki, gleði, friður, gæska góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Galatbréfið 5: 22-23
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að í orði þínu segir að ávöxtur andans sé gleði. Viltu gefa mér þennan ávöxt, gleðina. Þakka þér fyrir að þú gefur endurgjaldslaust og þú lofar þessum ávexti þeim sem á þig trúa og til þín leita. Viltu feykja burt depurðinni úr huga mínum. Viltu leysa mig undan því sem þjakar mig og gefa mér frelsi, gleði og frið. Í Jesú nafni, amen.
Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Sálmur 32:8
Góði Guð.
Þú segir í orði þínu, Biblíunni, að þú viljir vísa mér veginn sem ég á ganga. Viltu vísa mér þennan veg, leiða mig í lífinu og stýra skrefum mínum, hugsunum og ákvörðunum. Viltu sýna mér hvað þú vilt að ég geri. Viltu láta mig finna það sem hjarta mitt leitar að. Viltu líka gefa mér ráð og vaka yfir mér. Ég trúi því að þú hafir meiri tilgang með lífi mínu en ég hef fundið. Sýndu mér þennan tilgang og hjálpaðu mér að halda mér fast við þig. Hjálpaðu mér að biðja til þín á hverjum degi. Verði þinn vilji í lífi mínu. Í Jesú nafni, amen.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Matteusarguðspjall 5:6
Góði Guð.
Ég trúi því að þú hafir áætlun með lífi mínu sem ég hef ekki fundið eða gengið inn í. Þú sagðir sjálfur, Jesús, að þeir væru sælir sem hungraði og þyrsti eftir réttlætinu. Þú sagðir líka að þeir yrðu saddir. Vilt þú seðja andlegt hungur mitt. Ég gef þér allt mitt líf. Þú mátt eiga hæfileika mína og getu og láta vilja þinn rætast í lífi mínu. Viltu fylla mig af anda þínum og gefa mér úthald í bæninni. Viltu opna mér nýjar dyr til að þjóna þér. Viltu hjálpa mér að upphefja þig. Í Jesú nafni, amen.
Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, gamalmenni yðar mun dreyma drauma og ungmenni yðar munu fá vitranir. Jóel 3:1.
Góði Guð.
Þegar ég les orðið þitt sé ég að það er svo margt sem ég hef ekki fengið að reyna eða upplifa. Þú lofaðir að senda heilagan anda yfir alla og ég veit að heilagur andi kom yfir þitt fólk þegar Jesús fór. Ég veit að heilagur andi er alltaf til staðar, en ég bið þig að gefa mér meira. Viltu fylla mig af krafti heilags anda. Viltu tala til mín bæði í draumi og vöku. Viltu gefa mér vitranir og sýnir varðandi það sem koma skal. Viltu vara mig við, leiðbeina mér og hvetja. Viltu líka gefa að ég megi þekkja heilagan anda betur, hlusta þegar hann talar og ganga í takt við hann. Forðaðu mér frá því að hryggja anda þinn. Í Jesú nafni, amen.
Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.
Matteusarguðspjall 6: 9-13.
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að leiða mig inn á þessa síðu. Viltu hjálpa mér. Þú veist hvernig mér líður. Þú veist hvað hefur gerst í lífi mínu og hvað ég er að takast á við. Viltu létta byrðinni af herðum mér. Viltu taka þyngslin úr hjarta mínu og gefa mér frið. Viltu taka sársaukann og græða sárin mín. Viltu taka sorgina á þig og leysa mig undan þeirri andlegu þjáningu sem ég upplifi. Ég bið þess að þú komir öllu vel til vegar fyrir mig. Þakka þér fyrir að mér á ekki alltaf eftir að líða illa. Viltu senda mér traustan vin til að tala við.
Í Jesú nafni, amen.
Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.
Jesaja 41:10.
Góði Guð.
Þakka þér fyrir að það skuli vera hjálp að fá í þessum heimi. Þakka þér fyrir að geta lagt öll verkefni mín og áætlun í þínar hendur og treyst því að þú hjálpir mér. Viltu gefa mér þinn frið og hjálpa mér að sleppa takinu á því sem ég þarf ekki að gera. Viltu hjálpa mér að gíra mig niður og hugsa skýrt. Viltu sýna mér hverju ég get sleppt. Viltu líka hjálpa mér að hvíla mig. Hjálpaðu mér að fara bara á þeim hraða í gegnum lífið sem ég ræð við. Þakka þér fyrir að ég þarf ekki að vera alls staðar. Ég er ekki almáttug/ur. Þakka þér fyrir að sólin mun halda áfram að koma upp þótt ég slaki á.
Í Jesú nafni, amen.
Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði.
Sálmur 32:7
