Bænir

Guð heyrir bænir, Guð svarar bænum og það besta er að allir geta beðið. Það er ekki einu sinni flókið! 

Hvernig bið ég?

Að biðja til Guðs er eins og að tala við vin þinn í síma nema þú eyðir ekki inneign og þarft ekki síma heldur. Flestir loka augunum og spenna greipar en það er líklega bara til að halda athyglinni á réttum stað. Sumir fara í göngutúr til að biðja, aðrir krjúpa. Það er nauðsynlegt að biðja einn og gott að biðja með öðrum annað slagið.

 

Í Biblíunni eru leiðbeiningar um fyrir hverju maður skuli biðja og hvaða hugarfar maður eigi að hafa, en leiðbeiningar um bænastellingu eru fáar. Jesús fór stundum upp á fjall að biðja og var jafnvel alla nóttina á bæn, en hvort hann stóð, sat, kraup eða lá vitum við ekki. Guð er persónulegur Guð, hann er vinur og maður talar við hann. Prófaðu þig áfram og gerðu það sem þér þykir best. 

Hér fyrir neðan eru nokkrar bænir sem þú getur stuðst við þegar þú byrjar. Þú mátt líka koma bæninni í þín eigin orð. Svo geturðu smellt HÉR til að lesa Bænabókina en þar eru morgun- og kvöldbænir fyrir alla daga vikunnar.

Veldu bænir sem eiga við

Bæn um vernd


Góði Guð. Þakka þér fyrir að þú hefur allt vald á himni og jörðu. Þakka þér fyrir að þú hefur líf mitt í hendi þinni. Þakka þér fyrir allt sem að baki er og allt sem fram undan er. Vilt þú stýra skrefum mínum. Viltu þú vernda mig frá öllu illu. Viltu vernda mig fyrir slysum og hættum, sjúkdómum og veikindum. Viltu gefa mér styrk til að standast freistingar og hjálpaðu mér að taka réttar ákvarðanir sem verða mér til góðs. Viltu líka vernda mig gagnvart illu umtali og hjálpaðu mér að taka ekki þátt í baktali. Hjálpaðu mér að láta gott af mér leiða og leiddu mig þinn veg. Í Jesú nafni, amen.
Bæn um frið


Góði Guð. Ég þakka þér fyrir friðinn sem þú einn getur gefið. Friðinn sem er æðri öllum skilningi. Friðinn sem hægt er að eiga hvað svo sem gerist í kringum mig. Viltu gefa mér þennan frið. Viltu gefa mér þennan yfirnáttúrulega frið djúpt í hjarta mínu. Hvað sem hendir mig í dag og næstu daga þá bið ég þig að leyfa mér að finna að þú ert hjá mér. Viltu leyfa mér að finna að þú ert alltaf með mér og ekkert fær slitið mig úr hendi þinni. Viltu gefa mér frið þegar ég fer að sofa og frið þegar ég vakna. Og hvaða ófriði sem ég mæti í kringum mig þá bið ég þig að ófriður komist ekki að í lífi mínu vegna þess friðar sem þú hefur gefið mér. Verði þinn vilji í lífi mínu. Í Jesú nafni, amen.
Bæn um hugrekki


Góði Guð. Þakka þér fyrir alla þá hæfileika sem þú hefur gefið mér. Þakka þér fyrir allar þær hugmyndir og allan þann kraft sem þú hefur gefið mér til að láta gott af mér leiða. Viltu hjálpa mér að hrinda í framkvæmd þeim hlutum sem þú vilt að ég hrindi í framkvæmd. Vilt þú stöðva ótta, vantrú og leti í lífi mínu og gefa mér kjark, hugrekki og löngun til að hrinda í framkvæmd því sem þú velt að ég hrindi í framkvæmd. Viltu hjálpa mér að láta aldrei kvíða og ótta stjórna lífi mínu. Ég þigg hugrekkið og kjarkinn sem þú einn getur gefið og bið þig að hjálpa mér að fara af stað í hvert verkefni með þig mér við hlið. Í Jesú nafni, amen.
Bæn um trú


Góði Guð. Viltu hjálpa mér að ganga í takt við þig hvern einasta dag. Viltu hjálpa mér að sjá alltaf lausnir í öllum kringumstæðum og muna að þú hefur allt vald á himni og jörðu. Jesús, vilt þú auka mér trú. Vilt þú svipta hulunni frá augum mínum þannig að ég komi auga á það sem þú vilt að ég komi auga á og ég sjái lengra en ég hef gert hingað til. Vilt þú fylla mig af krafti heilags anda og gefa að vantrú mín verði aldrei hindrun gagnvart áætlun þinni í lífi mínu. Hjálpaðu vantrú minni og taktu hana burt. Ég þigg þá trú sem þú vilt gefa mér og hjálpaðu mér að hindra þig ekki í verki þínu heldur vera farvegur fyrir heilagan anda þinn. Í Jesú nafni, amen.
Bæn um áætlun Guðs


Góði Guð. Ég þakka þér fyrir að það segir í orði þínu, Biblíunni, að þú hafir tilgang með lífi mínu. Ég bið þess að sú áætlun sem þú hefur fyrir mig nái framgangi. Opnaðu mér þær dyr sem þú vilt að ég gangi gegnum á hverjum einasta degi. Hjálpaðu mér að rata inn í það hlutverk sem þú vilt að ég gegni og viltu auka mér trú. Ég bið þess að þú hjálpir mér að líta hvorki of stórum augum á sjálfa/n mig né of smáum. Hjálpaðu mér að geta beygt mig á hverjum tíma fyrir vilja þínum og borið höfuðið hátt, þegar þú vilt, knúin/n anda þínum. Ég legg mig algjörlega í þínar hendur og bið: Verði þinn vilji í lífi mínu. Þú mátt eiga mig eins og ég er og gera mig eins og þú vilt hafa mig. Viltu sníða þá galla af mér sem eru mér og þér til hindrunar. Í Jesú nafni, amen.