Bænir

Guð heyrir bænir og Guð svarar bænum.

Hvernig bið ég?

Það er hægt að biðja hvar sem er og hvenær sem er, upphátt og í hljóði. Bæn er í raun að tala við Guð. Þú þarft ekki að biðja stöðugt um eitthvað eða að biðja hann að gera eitthvað fyrir þig, þú getur þakkað fyrir það sem þú hefur að þakka fyrir og lært með tímanum að dvelja í nærveru Guðs. Að biðja til Guðs er eins og að tala við vin þinn í síma nema þú eyðir ekki inneign og þarft ekki síma heldur. Það er nauðsynlegt að biðja í einrúmi en það er líka gott að biðja með öðrum annað slagið.

Hversu lengi á ég að biðja?

Það er engin regla um hversu langar bænastundir eigi að vera eða hversu oft. Það er hins vegar gott að venja sig á að biðja á hverjum degi, jafnvel kvölds og morgna þegar maður stígur sín fyrstu skref í að nálgast Guð. Þeir sem hafa eignast úthald í bæninni geta beðið svo klukkustundum skiptir. En bænin verður þá oft bæði samtal og lofsöngur.

Jesús fór stundum upp á fjall að biðja og var jafnvel alla nóttina á bæn, en hvort hann stóð, sat, kraup eða lá vitum við ekki. Guð er persónulegur Guð, hann er vinur og við tölum við hann. Prófaðu þig áfram og gerðu það sem þér þykir best. Í Biblíunni eru leiðbeiningar um fyrir hverju maður skuli biðja og hvaða hugarfar maður eigi að hafa. En fyrsta skrefið er alltaf að byrja að biðja og gera bænina að vana í lífi sínu. Guði er annt um þig og þú mátt koma með það sem liggur þér á hjarta til hans.

Hér fyrir neðan eru nokkrar bænir sem þú getur stuðst við þegar þú byrjar. Þú mátt líka koma bæninni í þín eigin orð. Svo geturðu smellt HÉR til að lesa Bænabókina en þar eru morgun- og kvöldbænir fyrir alla daga vikunnar.

Bænirnar hér fyrir neðan má biðja aftur og aftur. Ef þú þarft á hjálp að halda lestu þá bænina eins oft og þú þarft eða vilt og sannaðu til, þú færð svar.