Um bæn.is
Nokkur orð frá höfundi
Fyrir mörgum árum lagði Guð á hjarta mitt að skrifa og gefa út litla bænabók með morgun- og kvöldbæn fyrir alla daga vikunnar. Ég sagði oft að ég ætti engan heiður af þessari bók því að hugsjónin kom frá Guði og það var andi hans sem knúði mig til að skrifa. Það er skemmst frá því að segja að bænabókin féll í góðan jarðveg og á tuttugu árum hefur henni verið dreift á landinu í meira en 100.000 eintökum. Undanfarin ár hefur mikilvægi þess að koma bænabókinni á rafrænt form orðið augljósara. Í framhaldi af því stækkaði hugsjónin og því varð þessi heimasíða til. Knúin anda Guðs til þessa verks held ég áfram að skrifa bænir og hvetja fólk til að tala við Guð frá eigin hjarta með sínum eigin orðum. Ég þekki það sjálf af eigin reynslu að það er gott að styðjast við bænir annarra til að nálgast Guð. Sjálf hlusta ég oft á bænir annarra sem finna má ógrynni af á netinu á ensku. Þær hjálpa manni að biðja lengur en þegar maður biður einn og það er ákveðinn leyndardómur fólginn í að hafa úthald í bæninni. Í gamla daga hét það að biðja í gegn. Að biðja þangað til svarið kom. En bæn er svo miklu meira en að biðja um eitthvað. Í gegnum bæn er hægt að dvelja í nærveru Guðs án þess að biðja um eitthvað eða biðja fyrir einhverju. Það að gefa Guði tíma, dvelja í nærveru hans og læra að hlusta á röddina hans opnar okkur dyr sem okkur óraði ekki fyrir. Hann gefur visku, ráð og leiðir.
Um höfundinn
Höfundur og ábyrgðarmaður þessarar síðu er Dögg Harðardóttir Fossberg. Dögg lauk BSc prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands, uppeldis- og kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómanámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun frá sama skóla. Þá hefur hún einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna háskólanum í Háskólanum í Reykjavík og hefur alþjóðlega ICF vottun sem stjórnendamarkþjálfi. Dögg hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum sem hjúkrunarfræðingur og meðal annars starfað sem slíkur í þremur sveitarfélögum, í Reykjavík, á Akureyri og Húsavík. Þá kenndi hún um nokkurra ára skeið við grunn- og framhaldsskólann á Húsavík. Hún átti sæti í nefnd á vegum Akureyrarbæjar sem vann að endurskoðun mannauðsstefnu bæjarins og var kjörin af þjóðinni til setu í stjórnlagaráði sem vann að endurskoðun stjórnarskrár Íslands.
Dögg hefur yfir 15 ára reynlu sem stjórnandi innan heilbrigðisþjónustunnar og starfar nú á mannauðsskrifstofu Landspítala í stuðnings- og ráðgjafarteymi spítalans.
Meðfram starfi hefur Dögg sinnt sjálfboðavinnu á hinum ýmsu stöðum innan kristna geirans. Hún var formaður Aglow, þverkirkjulegra kvennasamtaka, stjórnarmaður í Gídeonfélaginu, varaforseti Hins íslenska biblíufélags, formaður félagsins Nemendur og trú, átti sæti í ritnefnd og skrifaði greinar fyrir tímaritið Bjarma, var dagskrárgerðarmaður á útvarpsstöðinni Lindinni, var foringi í sumarbúðum KFUM, tók þátt í barna- og unglingastarfi í Reykjavík, á Akureyri og í Húsavíkurkirkju, átti sæti í stjórn Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík og Akureyri og á sæti í undirbúningsnefnd leiðtogaráðstefnunnar GLS (Global Leadership Summit). Hún hefur gefið út bækurnar Arfur konunnar og Bænabók auk Daggardropa á geilsadiskum, stuttra hugleiðinga um lífið og tilveruna. Dögg hefur haldið fjölda fyrirlestra og ræður víða um land.
Dögg er gift Fjalari Frey Einarssyni, kennsluráðgjafa og eiga þau synina Einar Aron og Jóel.