top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Ert þú að hlusta?

Í Gamla testamentinu er bók sem kennd er við mann sem hét Amos. Bókin hefst á orðunum: ,,Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa."


Upphafsorðin segja okkur að Amos hafi hvorki verið konungur né hátt settur. Hann gegndi ekki virðingarstöðu, en vinnan hans var engu að síður mikilvæg. Amos var fjárhirðir. Amos var hvorki fyrsti né síðasti fjárhirðirinn sem Guð talaði til á tímum Biblíunnar. Amos þekkti rödd Guðs það vel að hann fullyrti að Guð gerði ekkert nema opinbera það fyrst spámönnum sínum. Það er eftirsóknarvert að heyra Guð tala. Það er eftirsóknarvert að fá leiðbeiningar fyrir líf sitt, ákveðna stefnu, viðvörun eða verkefni til að vinna að. Það er eftirsóknarvert og trúarstyrkjandi að heyra rödd almáttugs Guðs og fá að vera í verki með honum. Ég veit ekki hvort Guð hefur talað til þín, en hitt veit ég að þegar hann talar til fólks þá fer hann ekki eftir stétt eða stöðu. Það skiptir engu máli hvort þú sért verkamaður, hárskeri, háskólakennari eða bankastjóri. Guð getur talað til þín ef þú kærir þig um að hlusta. Amos hlustaði og fékk að reyna það sem mörg okkar þrá dag hvern, það er að heyra Guð tala. Fyrir Guði eru allir jafnir. Hann fer aldrei í manngreinarálit. Langi þig til að heyra hann tala þarftu að gefa þér tíma og dvelja í nærveru hans. Gerðu bæn að daglegri venju, jafnvel oft á dag, lestu Nýja testamentið og hlustaðu á lofgjörðartónlist. Þá munt þú fá að reyna það sem Amos fékk að reyna. Orð Guðs kemur til þín.




bottom of page