top of page
Writer's pictureDögg Harðardóttir

Hugrekki

Þegar Jesús ákvað að kalla Pál postula til fylgdar við sig, sem þá hét Sál, talaði Jesús til lærisveins sem hét Ananías og sagði: ,,Farðu þegar í stræti sem kallað er hið beina. Þar muntu finna mann sem heitir Sál. Hann er að biðja.“

Ananíasi leist ekkert á þetta verkefni. Hann varð óttasleginn og sagði við Guð: Ég hef heyrt mjög margt alveg ótrúlega ljótt um þennan mann. Hann ofsækir kristið fólk og vill drepa það.

En Guð sagði: Ég hef valið þennan mann til að bera mér vitni. Ég mun sýna honum hversu margt hann þarf að þola vegna mín og fagnaðarerindisins.

Og við þessi orð ákvað Ananías að láta sig hafa það, bíta á jaxlinn og fara af stað. Út í óvissuna. Hann hafði ekki hugmynd um hvað myndi mæta sér, hvernig Páll myndi taka sér og hvort hann yrði fyrir einhverjum ofsóknum eða skakkaföllum. En hann lét ekki óttann stöðva sig.

Guð hafði sagt: Farðu af stað. Guð vissi að Ananías var hræddur við þennan mann. Samt sagði hann: Farðu til hans. Og ferðin skilaði betri árangri en Ananías hafði þorað að vona.

Getur verið að Guð vilji að skorum óttann á hólm? Að við látum ekki óþægilegar tilfinningar stýra hegðun okkar. Að við sýnum hugrekki og þorum að gera það sem okkur finnst óþægilegt.

Hversu oft segir Guð ekki:


Farðu af stað í þessum styrkleika þínum.

Guð er með þér hugrakki hermaður.

Óttastu ekki. Ég er með þér.

Láttu ekki hugfallast.

Enginn mun vinna þér mein því að ég á margt fólk í þessari borg.


Þegar við lesum Biblíuna sjáum við hvernig Guð hvatti fólk aftur og aftur til að láta ekki ótta og kvíða stjórna lífi sínu. Öflugustu einstaklingar gátu staðið frammi fyrir erfiðum verkefnum og óþægilegum tilfinningum, en þeir bitu á jaxlinn og héldu áfram í trausti þess að Guð myndi aldrei sleppa af þeim hendinni né yfirgefa þá. Og þeim varð að ósk sinni.

Ekki gefast upp. Ekki hætta. Bíttu á jaxlinn, haltu áfram og leyfðu Guði að komast að til að hjálpa þér.




Comments


bottom of page