top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Jesús er hjá þér í neyðinni

Stundum henda erfiðir hlutir gott fólk. Þegar það gerist fer fólk stundum að efast um tilvist Guðs eða efast um að hann sé góður.

Stefán píslarvottur var fyrsti maðurinn sem lét lífið vegna trúar sinnar á Jesú. Stefán var ákafur trúmaður, fylltur heilögum anda og krafti hans. Stefán var maður sem hafði uppgötvað að Jesús var Guð og hann ákvað að fylgja honum hvað sem það kostaði. Stefán átti alla framtíðina fyrir sér. Og við getum spurt hvort Guð hafi ekki þurft á honum að halda? Svona öflugum og heilsteyptum manni. Í Postulasögunni 6:8 segir: ,,Stefán var fullur af náð og krafti og gerði undur og tákn mikil meðal fólksins.“ Í kjölfarið eignuðust margir trú. En þá fóru andstæðingar Stefáns af stað. Þeir æstu fólk upp og fengu menn til að ljúga upp á Stefán sem endaði með því að hann var grýttur til bana. Átakanleg saga. Rétt áður en Stefán dó sagði hann: ,,Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði“ (Post. 7:56).

Hversu illa sem Stefáni leið þar sem hann var beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi og hversu illa sem foreldrum hans, systkinum og vinum leið yfir örlögum hans þá var Jesús til staðar. Jesús varð vitni að framkomunni sem dró Stefán til dauða. Við skiljum ekki hvers vegna Guð grípur ekki alltaf inn í atburðarrásina og stöðvar þrengingar okkar. Vissulega gerir hann það oft, en ekki alltaf. Stefán var fullur af heilögum anda fram í andlátið. Guð gaf honum líka visku sem andstæðingar hans gátu ekki staðið gegn, hrakið eða mótmælt.

Þegar við horfum fram á veginn þá getur vel verið að einhverjar þrengingar bíði okkar. En Jesús þekkir þær allar. Hann er hjá okkur í neyðinni. Hann sagði sjálfur: „Í heiminum hafið þið þrengingu, en verið hughraust, ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh. 16:33). Þrengingin veitir okkur þolgæði, úthald og þrýstir okkur nær Guði.

Þegar erfiðu dagarnir koma þá hefur Guð ekki gleymt þér. Hann hjálpar þér. Og hver veit nema erfiðleikarnir þínir leiði til þess að maður eins og Páll postuli eignist trú. Það gerðist í kjölfar dauða Stefáns.

Guð blessi þig, styrki þig og efli þig, í Jesú nafni.


bottom of page