top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Ekki óttast

Þegar Gabríel engill var sendur frá Guði til Maríu til að opinbera henni heilaga köllun þá fór hann ekki húsavillt.


Guð vissi hvar hún bjó, hann vissi hvað hún hét og hann þekkti bæði fortíð hennar og framtíð. Þegar engillinn sagði: ,,Óttast þú ekki, María" þá vissi Guð að fjórum sinnum myndi hrikta verulega í tilveru Maríu. María fékk mörg tilefni til að óttast um drenginn sinn.

En Guð var við stjórnvölinn. Þegar engillinn hafði heilsað Maríu þá varð hún hrædd og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Hugsanlega skynjaði María á þeirri stundu sömu alvöru og hún átti eftir að upplifa þegar hún stóð við kross sonar síns og horfði á líf hans fjara út, full vanmáttar. Frammi fyrir valdi engilsins kann að vera að María hafi skynjað kraft og mátt sem var æðri henni sjálfri og hún deildi ekki við.


Þegar engillinn sagði Maríu að óttast ekki var framtíðin henni hulin. En hún var ekki hulin Guði sem myndi eiga síðasta orðið. María fékk að vita að hún yrði þunguð og myndi fæða son. En hún fékk ekki að vita að Jósef myndi ætla að slíta sambandinu þegar hann frétti að hún væri ófrísk. Hún fékk heldur ekki að vita að hún myndi ekki fæða barnið heima hjá sér heldur í fjárhúsi. Henni var ekki sagt að það yrði ekki pláss fyrir hana í gistihúsi. Hún vissi ekki að Jesús myndi týnast þegar hann yrði 12 ára og þaðan af síður vissi hún að hann yrði krossfestur.

Þrátt fyrir raunirnar sem María átti eftir að standa frammi fyrir sagði engillinn henni að óttast ekki. Ef til vill hefði hún misst kjarkinn hefði hún vitað hvað lífið bæri í för með sér. En sem betur fer komu ekki allar raunirnar sama daginn eða sama árið heldur ein í einu og hún komst í gegnum þær allar.


Þegar við felum Guði líf okkar getum við átt sálarfrið á erfiðustu stundum lífs okkar. Við skiljum ekki alltaf hvers vegna erfiðir hlutir henda gott fólk, en við getum fulltreyst því að í hendi Guðs sé okkur óhætt. Rétt eins og í lífi Maríu þá mun Guð eiga síðasta orðið í okkar lífi svo lengi sem við þiggjum hjálp hans og felum okkur í hans hendur.

Comments


bottom of page