top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Öskubuska

Manstu eftir sögunni um Öskubusku? Stelpunni sem týndi öðrum skónum sínum og prinsinn linnti ekki látum fyrr en hann fann stelpuna sem passaði í skóinn því að hún skyldi verða konan hans. Þær voru margar stelpurnar sem vildu passa í skóinn. Og þær beittu til þess ýmsum brögðum. Ein skar af sér tærnar og önnur hælinn til að freista þess að komast í skóinn. Þegar slíkum ráðum er beitt er hætt við að bæði fóturinn eyðileggist svo og skórinn því að hann verður allur ataður blóði.

Í lífinu skiptir máli að hver og einn sé í réttum skóm, það er að segja á þeim stað sem Guð hefur ætlað honum, að sinna þeim verkefnum sem hann hefur getu til. Annars kann svo að fara að hann eyðileggi bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Stundum er sagt að það sé ekki auðvelt að fara í annarra skó. Ef við erum í of stórum skóm þá missum við þá af okkur eða misstígum okkur. Ef við erum í of litlum skóm fáum við hælsæri. Á lífsgöngunni hefur Guð falið okkur ólík hlutverk. Það er aldrei gott að færast of mikið í fang og það er heldur ekki gott að vera að sinna verkefnum sem eru ónóg áskorun. Við þurfum verkefni sem hæfa okkur. Verkefni sem reyna á getu okkar og hæfileika, en við þurfum á skynsemi að halda til að taka ekki að okkur hluti sem við ráðum ekki við. Við þurfum líka visku og kjark til að færa okkur um set þegar við stöðnum. Ef við erum á réttum stað, á réttum tíma með rétt hugarfar þá skila verk okkar árangri. Biblían kallar það að bera ávöxt.




Opmerkingen


bottom of page