top of page
  • Writer's pictureDögg Harðardóttir

Dánaraðstoð, en hvað svo?

Eitt sinn skrifaði Kolbrún Bergþórsdóttir grein í Fréttablaðið um dánaraðstoð. Í greininni lét hún þess getið að heilbrigðisstarfsfólk sé tregt til að ljá málinu stuðning. Ég hef verið heilbrigðisstarfsmaður í áratugi og greinin fékk mig til að hugsa aðeins lengra.


Ég hef ekki tölu á þeim dánarbeðum sem ég hef komið að. Ég hef hjúkrað fólki sem hefur kvatt lífið satt lífdaga í sátt við Guð og menn og ég hef hjúkrað fólki sem hefur lokið æviskeiði sínu en er reitt og biturt. Ég hef líka hjúkrað fólki sem er hrætt við að deyja.


Hið óþekkta

Það er auðvelt að hafa sterkar skoðanir á lífinu og dauðanum þegar allt leikur í lyndi. En þegar fólk finnur að það getur ekki staðið gegn þessu volduga afli sem dauðinn er og enginn fær flúið þá finna sumir til ótta. Ótta við hið óþekkta. Ótta við hvað geti mögulega tekið við. Ef til vill óttast fólk að þurfa að horfast í augu við sjálft sig. Hvernig það spilaði úr því sem því var gefið. Ótta við að uppskera eins og það hefur sáð og veit kannski að sáningunni var ábótavant.


Dag einn kemur röðin að okkur öllum

Þá er gott að minnast þess hvað drengurinn litli sem fæddist í Betlehem og við minnumst á jólunum sagði þegar hann var orðinn fullorðinn. Hann hvatti fólk til að játa syndir sínar, fyrirgefa náunganum og fylgja sér. Hann gaf okkur bænina Faðir vor og sagði: „Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ Það er dýrmæt gjöf að fá að taka í höndina hans og leyfa honum að leiða sig, hvenær sem að okkur kemur. Það er líka dýrmætt að fá að taka undir með manninum sem var krossfestur með Jesú, kunni sennilega ekki að biðja, en sagði: Jesús, minnstu mín..." Það þarf ekki flóknar bænir til að Guð bænheyri. Jesús, minnstu mín er bæn sem þú getur gert að þinni.

Comentarios


bottom of page