top of page
Writer's pictureDögg Harðardóttir

Ég prédika ekki sjálfan mig

Þegar ég les Nýja testamentið þá fer ekki fram hjá mér að kraftaverk fylgdu boðun Guðs orðs. Fólk læknaðist af alls konar sjúkdómum og veikindum, bæði andlegum og líkamlegum. Þessi kraftaverk fylgdu ekki aðeins Jesú, heldur lærisveinum hans líka eftir að Jesús hafði verið krossfestur og var upprisinn.

Þegar Páll postuli kom í heimsókn til Korintuborgar þá sagði hann við söfnuðinn í Korintu að hann væri ekki að koma til þeirra með frábæra mælskusnilld eða speki. Páll hefði auðveldlega getað gert það því að hann var ræðuskörungur, hann var bæði mælskur og vel lesinn. Hann sagði hins vegar að kraftur boðunarinnar ætti að felast í krafti Guðs. Aftur og aftur sagðist Páll vera kominn til að boða trú á Jesú og hann sagði: ,,Ekki prédika ég sjálfan mig heldur prédika ég að Kristur Jesús sé Drottinn." Páll hafði hvorki þörf né löngun til að vera tilbeðinn. Hann vissi að krafturinn yrði að koma frá Guði en ekki Páli sjálfum.

Ein vísasta leiðin til að slökkva andann er að eigna sjálfum sér heiðurinn af því sem Guð einn á heiðurinn af.

Páll sagði eitt sinn að hann ætlaði að kynna sér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.

Þegar kraftaverk gerðust við prédikun Páls þá eignaði hann aldrei sjálfum sér heiðurinn. Páll reyndi aldrei að slá í gegn eða ná fylgjendum á sitt band. Hann var kallaður til þess að upphefja Jesú en ekki sjálfan sig. Hann sagði að krafturinn mikli kæmi frá Guði en ekki frá Páli. Þessi kraftur, kraftur heilags anda, er enn til staðar á okkar tímum. Þegar Guðs orð er boðað, hreint og ómengað, rétt orð á réttum tíma, þá gefur heilagur andi orðunum líf og snertir þá sem hlusta.


Comments


bottom of page